„Eitthvað annað“ – Innviðir og ábreiður

„Eitthvað annað“ – Innviðir og ábreiður

INNVIÐIR  voru eitt helsta einkennisorð Vinstri grænna í aðdraganda kosninga fyrir ári síðan. Uppbygging og viðhald INNVIÐA samfélagsins og þjóðarinnar í nokkuð víðum skilningi, þjónustan sem ríkisvaldið tryggir og fjármagnar. Mennta- og heilbrigðiskerfið og almannaþjónustan öll. Og vegirnir og brýrnar og rafmagn og ljós. Ótal orð í pontu og bunkar af skjölum liggja eftir Vinstri græn síðustu misserin þar sem þessu er málefnalega komið til skila. Og líka leiðir til að fjármagna þessa innviði. Auðvitað hefur þetta ekki breyst í meginatriðum á þessu eina ári frá síðustu kosningum. INNVIÐIR samfélagsins eru enn í kastljósinu. Nú er hins vegar kominn nýr tónn í umræðu hinna flokkanna. Eiginlega samhljómur um þessa innviði. Það virðast nefnilega öll framboð núna, nokkrum dögum fyrir kosningar, vera orðin sammála málflutningi Vinstri grænna síðustu misserin um svelti innviðanna. Um þörfina á að fjármagna betur almannaþjónustuna og stórauka fjárfestingu. Allt í einu er einfasa rafmagn í sveitum orðið óboðlegt. Fjárvana framhaldsskólar ekki viðunandi. Og einbreiðu brýrnar á Suðurlandi og þvottabrettin á Brekknaheiðinni ónothæf. Og ástandið í heilbrigðiskerfinu ekki vel gott.

Nýfrjálshyggjan heitin

Við eldhúsborð landsins sitja frjálshyggjumenn þöglir. Þeir finnast fáir núna sem halda þeim sjónarmiðum á lofti að draga skuli úr umsvifum almannaþjónustunnar eða minnka fjárfestingu. Auka einkarekstur í heilbrigðiskerfinu. Einkavæða grunnskólana. Þeir skila auðu. Til allrar guðs lukku. Það eina sem eftir lifir af nýfrjálshyggjunni heitinni í umræðunni er innihaldslaus og útópískur gjallandinn um skattalækkanir sem eiga að geta átt sér stað án útgjaldaskerðinga eða nokkurs samdráttar í almannaþjónustunni.  Meira að segja markaðssinnuð núverandi ríkisstjórn virðist hlaupa hratt undan sinni eigin stefnumörkun í ríkisfjármálaáætluninni og splunkunýju fjárlagafrumvarpinu sem á henni byggir. Frjálshyggjufólkið vill núna leggja fleiri vegi. Byggja sjúkrahús. Styrkja þjónustu og rekstur. Styrkja INNVIÐINA. Fyrir ríkisfé.

„Eitthvað annað“

Það er ekki nýtt í sjálfu sér að stefin úr stefnuskrá Vinstri grænna heyrist rauluð af öðrum framboðum. Þannig er kjarninn úr atvinnustefnu Vinstri grænna frá því fyrir um áratug orðinn að staðalfrasa annarra framboða þetta árið. „Eitthvað-annað“ stefnan, þið munið, nýsköpun og grænir, sjálfbærir atvinnuvegir. Þetta er auðvitað afbragðsgott allt saman. „Eitthvað annað“ er orðin meginskoðun. Og nú er svo komið að þetta á líka við um INNVIÐA-umræðuna okkar. Sífellt fleira fólk er farið að vilja „eitthvað annað“ en að svelta innviðina og almannaþjónustuna og herða stilliskrúfur skattkerfisins á öfugum enda. Vinstri græn vilja það alla vega. Og framboðin elta.

Þetta beinir þá kannski sjónum meira en oft að trúverðuleik þeirra sem raula stefið um INNVIÐINA.  Ég held það sé rétt að spyrja nú bara spurningarinnar sem Vinstri græn köstuðu fram fyrir síðustu kosningar: Hverjum treystir þú? Ábreiðunni eða orginalnum?