Þorpstjarnir

Þorpstjarnir

Málið

Nýverið birtist á vef www.visir.is frétt þar sem fjallað er um tjarnirnar við þorpið á Raufarhöfn. Sjá hér:  https://www.visir.is/g/2019190709972/thorpstjornin-ad-thorna-upp-vegna-sundlaugar-
Hafðar eru eftir íbúa á Raufarhöfn áhyggjur af neikvæðum áhrifum af borholuprófunum á svæðinu. Einnig embættismanni Norðurþings, þ.e.  framkvæmdastjóra Orkuveitu Húsavíkur, en veitan fer með þessar framkvæmdir. Þetta er eitt af þessum litlu, en samt stóru, málum sem sveitarstjórnir fást við frá degi til dags.  Málið snýst um mögulega uppsetningu á varmadælum fyrir sundlaug og íþróttamannvirki þorpsbúa. Vandinn er sá að svo virðist sem borholuprófanir hafi óvænt valdið breytingum á vatnsyfirborði tjarnanna.

Samskipti og ábyrgð

Á fyrrgreindum vef eru höfð eftir sviðsstjóra/framkvæmdastjóra hjá Norðurþingi vond ummæli gagnvart þeim íbúum sem haft hafa sig frammi í málinu Raufarhöfn. Þessi ummæli verða ekki höfð eftir eða rakin frekar hér. Þetta dregur hins vegar glögglega fram að kjörnir fulltrúar eru ekki þeir einu sem koma fram fyrir hönd sveitarfélaga, heldur gera embættismenn það í fjölmörgum málum. Nær alltaf með afskaplega góðum hætti og jákvæðum, en stundum gerast mistök.  Auðvitað þarf fullorðið fólk nú alltaf að vera ábyrgt sinna orða og það þykist ég vita að verður í þessu tilviki.  Það breytir því ekki að í hinu pólitíska umhverfi eru kjörnir fulltrúar almennt og yfirleitt ábyrgir fyrir gjörðum síns sveitarfélags og þeirra sem koma fram fyrir það. Á þeim forsendum verður ekki undan því skorist að bregðast við, þó seint muni ég nú vilja undirgangast hlutdeild í þessari framgöngu, frekar en væntanlega aðrir félagar mínir í sveitarstjórn.

Afsökun

Sveitarstjórn Norðurþings hefur, eins og flestar aðrar sveitarstjórnir, metnaðarfull áform um jákvæð og uppbyggileg samskipti. Þetta vil ég segja um málið:  Svona gerir fólk ekki. Sveitarfélög tala ekki niður til íbúanna sinna eða hæðist að málstað þess. Þá íbúa sem sveitarfélagið, eða einhver angi þess, talar af vanvirðingu til þarf að biðjast afsökunar af einlægni. Það þarf að biðja íbúa á Raufarhöfn afsökunar núna og það geri ég hér með svo langt sem mín rödd nær.  Íbúar á Raufarhöfn hafa fullan rétt á því að hafa áhyggjur af sínu samfélagi og umhverfi og bera sín mál upp málefnalega við starfsmenn og kjörna fulltrúa. Við eigum öll okkar „þorpstjarnir“ hvar á landi sem við búum. Fullvita fólk þarf ekkert utanaðkomandi hjálp við að meta hvað því á að þykja mikilvægt í sínu nærumhverrfi og hvað ekki. Tjarnirnar á Raufarhöfn eru síst ómerkilegri en Botnsvötn og Vatnsmýrar þessa lands.

Viðbrögð

Það ætla ég að staðhæfa að héðan í frá verður brugðist málefnalega og kurteislega við athugasemdum íbúa á Raufarhöfn. Málið mun verða á dagskrá næsta fundar framkvæmda- og skipulagsráðs Norðurþings út frá umhverfissjónarmiðum. Orkuveita Húsavíkur og byggðarráð Norðurþings munu einnig fjalla um málið á sínum fundum.  Vonandi finnst farsæl lausn sem fyrst í þágu íbúa á Raufarhöfn.

Að lokum er ágætt að hafa í huga almennt og yfirleitt í svona lögðuðu að við erum öll að leggja okkur fram og reyna að gera okkar besta. Það á við um okkar góða starfsfólk hjá Norðurþingi rétt eins og okkur kjörnu fulltrúana.  Okkur tekst það bara ekki alltaf. Og þegar svo bregður við þurfum við að horfa ekki bara á mistökin sem gerð voru heldur það hvernig unnið verður úr þeim.

 

Óli Halldórsson

Forseti sveitarstjórnar Norðurþings

 

(Mynd af vef: visir.is)