Stundum þarf að segja nei…

Stundum þarf að segja nei…

[Grein birt í héraðsfréttablaðinu Skarpi 11. maí 2018]

 

Stundum þarf að segja nei

Sveitarstjórnir fást því betur oftast við jákvæð mál. Mál sem snúast um stefnumörkun og ákvarðanir í almannaþjónustu af ýmsu tagi. Líka um að bregðast við óskum, erindum og hugmyndum sem berast utan frá. Í öllum tilvikum þarf afgreiðsla þessara mála að byggja á almannahagsmunum. Stundum kemur sú staða upp að gæsla almannahagsmuna er andsnúin eiginhagsmunum einstaklinga, fyrirtækja eða hópa. Við þessar aðstæður reynir hvað mest á fólk sem starfar á vettvangi sveitarstjórna. Á líðandi kjörtímabili hafa komið upp nokkur mál af þessum toga þar sem reynt hefur á það hvernig gengur að standa í fæturna þegar á reynir. Þora að standa á eigin sannfæringu og almannahagsmunum jafnvel þó á móti blási.  Vindurinn getur nefnilega verið úr öllum áttum og stundum sterkur.

V-listi hefur farið í svona mál fullum þunga. Oft með öðrum einstaklingum eða flokkum í meirihluta eða sveitarstjórn, en líka stundum upp á sitt einsdæmi. Hér eru listuð nokkur raunveruleg mál frá líðandi kjörtímabili, sem ekki hafa öll farið í mikla almenna umræðu til þessa. En þau eiga það sameiginlegt að hafa reynt nokkuð á fyrir sveitarstjórnarfólk V-lista.

(1) Vinnubúðabyggðin í Holtahverfi

Upp kom makalaust mál á líðandi kjörtímabili þar sem nýstofnað fasteignafélag lagði fram áform um byggingu tuga íbúða í Holtahverfi á Húsavík. Eins ánægjulegt og slíkt mál er í grunninn fór af því mesti glansinn þegar í ljós kom að uppistöðubyggingarefnið ætti að vera vinnubúðagámar sem staðið höfðu ónotaðir um árabil við Reyðarfjörð. Sveitarstjórnarfulltrúum var stillt upp á formlegum fundum með framkvæmdastjóra félagsins og erlendum sem innlendum ráðgjöfum. Hart var sótt fram með þessi áform og mikið rætt á „faglegum“ nótum við sveitarstjórnarfulltrúa um ágæti og lögmæti þessa byggingarmáta.  Hluti þessara funda fór að auki fram á enskri tungu og sátu sveitarstjórnarmenn uppi með þá erfiðu stöðu að þurfa að karpa um efni byggingarreglugerða, deiliskipulags og húsbyggingarefnis við verkfræðinga og aðra sérfræðinga á vegum félagsins, sem vildu reisa heilt íbúðahverfi úr þessum vinnubúðaeiningum.

V-listi hafði andstöðu við þessi áform strax í upphafi þegar þau komu fram og beittu fulltrúar listans sér af ákveðni gegn þessum áformum. Um þetta mál voru, þótt ótrúlegt megi virðast, skiptar skoðanir á meðal sveitarstjórnarfulltrúa Norðurþings, en frá upphafi var ljós eindregin andstaða V-lista, og var sú stefna rekin af þunga inn í stjórnsýslu Norðurþings. Úr varð að undið var ofan af vinnubúðabyggingunum og sett skýr ákvæði í deiliskipulagslýsingu fyrir hverfið þar sem vinnubúðahús af þessu tagi  voru einfaldlega útilokuð. Nú hefur risið fjöldi íbúða í þessu hverfi, byggðar samkvæmt hinum nýju skipulagsskilmálunum úr hefðbundnum byggingarefnum á steyptum grunni.  Vonandi verður prýði af þessu ágæta hverfi til frambúðar.

 (2) Kínverska hótelið á Grímsstöðum

V-listi hafði frumkvæði af því snemma á kjörtímabilinu að koma Norðurþingi út úr beinni þátttöku í ævintýrarlegri fjárfestingu kínversks fjárfestis á Grímstöðum á Fjöllum. Á fyrra kjörtímabili hafði myndast stemmning utan um fléttu sem fólst í því að stofna einkahlutafélag í eigu nokkurra sveitarfélaga, þ.m.t. Norðurþings, og láta það leppa eignarhald á jörð á Grímsstöðum. Ráðgert var að kaupverðið skipti hundruðum milljóna króna.

V-listi myndaði sér þá afstöðu, að hvað sem liði kostum og göllum hóteluppbyggingar á Grímsstöðum, ætti ekki undir neinum kringumstæðum að þvæla sveitarfélögum með almannasjóði inn í beina aðild að stórfelldum landakaupum einkafjárfesta. Þeirri skoðun var komið áleiðis inn í stjórn félagsins árið 2014.  Félagið var leyst upp í kjölfarið.

(3) Flók(n)ahúsið

Þegar V-listi settist í meirihluta sveitarstjórnar var sú stefna ríkjandi, og römmuð inn í skipulag, að rífa skyldi Flókahús á Hafnarstétt á Húsavík. Það átti að gera á ábyrgð og kostnað sveitarfélagsins. Um þetta hús var raunar búið að karpa nokkur síðustu ár án þess að neitt hefði komist í verk. V-listi og meirihlutinn ákváðu strax í upphafi kjörtímabilsins að stíga inn í þetta, snúa við ríkjandi stefnu og hyggja frekar að uppbyggingu þessa húss. Á viðburðaríkri leið að því markmiði var Flókahús á endanum selt hæstbjóðanda að undangengnum skipulagsbreytingum og útboði.

Flókahús endaði sem  glæsileg bygging sem hýsir lifandi atvinnustarfsemi á mikilvægum stað við höfnina á Húsavík.  Seljandinn, íbúar Norðurþings, fékk milljónatugi fyrir í stað þess að greiða úr eigin vasa fyrir niðurrifið. Á þessari leið þurfti oftar en einu sinni að forgangsraða hagsmunum almennings og standa á sínu.

 (4) Að slást við vindmyllur

Snemma á kjörtímabilinu barst erindi frá fyrirtæki sem vildi fá undirritaða viljayfirlýsingu frá Norðurþingi um að taka frá stórt svæði við Húsavíkurfjall undir vindmyllugarð. Þarna var ekki neinar smárellur að ræða heldur mannvirki til stórtækrar rafmagnsframleiðslu.

V-listi kaus strax að stíga varlega til jarðar í þessu máli. Þótt rafmagnsframleiðsla með vindi geti í grunninn verið af jákvæðum toga vöknuðu strax áhyggjur af því hvort röð hárra vindmylla ætti heima við Húsavíkurfjall, á stað þar sem fyrir er til staðar næg orka.  Sú stefna varð því fljótt ofan á að hlaupa ekki til og taka frá stóra reiti við Húsavíkurfjall með yfirlýsingum eða samningum. Engin viljayfirlýsing var því undirrituð.

(5) Álvershugmyndin endurvakin á Bakka

Árið 2015 barst formlegt erindi til sveitarstjórnar Norðurþings frá Klöppum development ehf. varðandi áform um álver á Bakka við Húsavík. Fast var sótt eftir undirritun viljayfirlýsingar frá Norðurþingi um verkefnið sem fólst í að byggja 240 þ.tonna álver í tveimur áföngum á Bakka. V-listi var andsnúinn þessu máli frá upphafi. Það að reisa stórt álver á Bakka, með tilheyrandi umfangsmiklum virkjunarmannvirkjum sem hefði þurft til, kom einfaldlega ekki til greina.  V-listi hafði skýrar áherslur í aðdraganda kosninga og lagði þær línur í stjórnarsáttmála strax í upphafi. Þetta snéri að því að lóðir á Bakka yrðu ráðgerðar fyrir smærri og meðalstór iðn- og þjónustufyrirtæki en ekki frekari stóriðnað. Álbræðsla af þessari stærð útheimtir hundruð megavatta af raforku, sem ekki hefur verið virkjað fyrir, auk töluverðrar loftmengunar eins og þekkt er.

V-listi sagði nei. Og því betur náðist samstaða í sveitarstjórn um það. Álversáformin voru flutt til Skagafjarðar í kjölfarið þar sem lítið hefur frést af þeim síðan.

 

Það er sannarlega vonandi að áfram verði jákvæðu málin meira áberandi í störfum sveitarstjórnar Norðurþings á komandi kjörtímabili en hin neikvæðu.  Að hugmyndir sem ganga gegn almannahagsmunum verði fáar.  En þær munu nú samt koma fram. Og þá þarf fólk og flokka í sveitarstjórn sem geta staðið af sér vind úr öllum áttum.

Hverjum treystir þú?

 

Óli Halldórsson

Guðmundur H. Halldórsson

Fulltrúar V-lista á kjörtímabilinu 2014-2018 og frambjóðendur til kosninga 2018.