Lítil grein um stóran þara

Lítil grein um stóran þara

[Grein sem birtist einnig í héraðsfréttamiðlinum 640.is 26. nóv. 2020]

Áformin

Undanfarið hafa verið kynnt áform um hagnýtingu svokallaðs stórþara (e. Kelp) með hirðingu hans fyrir ströndum Norðurlands og uppbyggingu afurðavinnslu á Húsavík. Í fullum afköstum yrði um að ræða 35 þúsund tonn af þara, tekin af grunnsævi og jarðvarmaþurrkuð til fullvinnslu. Meginafurð þessa eru samkvæmt kynningargögnum svokölluð „alginöt“ (e. alginates), sem nýtt eru til margvíslegra hluta, t.d. í gæludýrafóður, pappírsframleiðslu og lyfja- og matvælaiðnað. Forsenda alls þessa er að stórþarinn vex í töluverðum mæli við strendur á norðurslóðum og myndar mikla „þaraskóga“ neðansjávar þar sem mest er.

Ekkert umhverfismat og utan skipulags

Stundum heyrist það sagt að stjórnsýsla umhverfis- og skipulagsmála sé flókin og þæfin með öllum sínum tímafreku lýðræðislegu og faglegu ferlum. Oft á þessi gagnrýni sjálfsagt rétt á sér. En í tilviki þarans verður ekki sagt að stjórnsýslan sé að þvælast mikið fyrir. 

Í fyrsta lagi virðist verkefnið ekki vera talið falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og þar með vera undanskilið allri þeirri gagnaöflun, rannsóknum og opna samráði við almenning og hagsmunaaðila sem því fylgir. 

Í öðru lagi nær skipulagsvald sveitarfélaga ekki til nýtingarsvæðanna (ef þarinn er slitinn upp utan netlaga). Því verður ekkert heldur af annars óhjákvæmilegu samráði, kynningu og umhverfismati sem fylgir meðferð aðalskipulagsáætlana. 

Verkefnið virðist raunar einungis vera talið falla undir einfalda leyfisútgáfu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, en Kristján Þór Júlíusson ráðherra gaf einmitt nýverið út slíkt leyfi til „rannsókna á þörungum (stórþara og hrossaþara) fyrir Norðurlandi.“ Sú „rannsókn“ felst raunar í því að hefja þegar töku nokkur þúsunda tonna af þara, en afla upplýsinga samhliða sem legið gætu til grundvallar varanlegri nýtingarheimild. 

Ekki hafið yfir gagnrýni 

Í Skotlandi hafa verið uppi áþekk áform um nýtingu stórþara mörg undanfarin ár. Hópar fólks, ekki síst íbúar sjávarbyggða við Skotlandsstrendur, hafa lýst verulegum áhyggjum af brottnámi stórþarans með vísan til óvissu um áhrif þess að hrófla við þaraskógunum fyrir vistkerfi sjávar og stranda Skotlands (e. „magical underwater forests“, með orðum David Attenborough) [sjá tengil/heimild]. Engin leyfi virðast hafa fengist útgefin í Skotlandi þrátt fyrir miklar rökræður og rannsóknir. Fyrirtæki í þessum iðnaði hafa enda viljað leita annað þar sem leyfi kunna að fást með einfaldari hætti. Nýting stórþara með námi af grunnsævi er hins vegar ekki ný af nálinni þó seint verði þetta talinn stórtækur iðnaður á heimsvísu. Töluverð  reynsla er af þessu frá Noregi, en virðist reyndar bundin við mjög afmörkuð svæði þar. Með einfaldri leit má finna upplýsingar sem benda til þess að umfang þessarar tilteknu starfsemi á heimsvísu sé ekki meira en svo að fyrirhugað þaranám fyrir ströndum Norðurlands myndi vera nærri fimmtungur allrar núverandi heimsframleiðslu. [Sjá kynningarefni framkvæmdaraðila og heimildir]

Sveitarfélög, sjómenn, bændur, ferðaþjónusta

Ljóst er  að sveitarfélögin við strandlínu Norðurlands hafa afar lítið um nýtingu stórþarans að segja, þó þau geti vissulega látið sig málin varða af eigin frumkvæði kjósi þau það. Sveitarfélögin þrjú sem eru aðliggjandi Skjálfanda; Norðurþing, Þingeyjarsveit og Tjörneshreppur, hafa ennfremur enga sérstaka beina aðkomu að verkefninu þó vinnslan sé áformuð við Skjálfanda. Eina aðkoma sveitarfélaganna er raunar gegnum samninga um aðra praktíska þætti starfseminnar ef til slíkra kemur, svo sem úthlutun byggingarlóða eða vatnssölu til vinnslunnar. En sveitarfélögin eru ekki ein um að standa utan garðs. Enginn farvegur virðist vera fyrir hagsmunaaðila sem nú þegar nýta auðlindir hafsins á sömu eða áþekkum slóðum. Til að mynda grásleppusjómenn og strandveiðimenn sem byggja á langri hefð við veiðar nytjastofnanna sem eiga búsvæði á slóðum þaraskóganna. Heldur ekki sjávarbændur, hvalaskoðendur, laxveiðibændur og æðarbændur, eða bara íbúa sem vilja láta sig málin varða. Það skal tekið fram, svo sannmælis sé gætt, að hér er átt við formlega og fullgilda farvegi til samráðs og beina aðild að ákvarðantöku, ekki valkvæðar kynningar og samtöl á vegum framkvæmdaraðila.

Hvað skal gera?

Með þetta í huga eru hér nokkur atriði sem lagt er til að verði fylgt í næstu skrefum þessa verkefnis. Eðlilegt væri að eitt eða fleiri sveitarfélög við strandlínuna, og/eða samtök þeirra, hlutist til um þessi atriði, eftir atvikum í samráði við Skipulagsstofnun og viðeigandi ráðuneyti:

  • Umhverfisáhrif framkvæmdarinnar verði metin með lögbundnum ferli áður en ákvörðun er tekin um nýtingu (á grunni 7. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum).  
  • Vinna við haf- og strandsvæðaskipulag fyrir Skjálfanda og/eða stærra hafsvæði við Norðurland verði sett af stað hið fyrsta (á grunni landsskipulagsstefnu og laga nr. 88/2018 um skipulag haf- og strandsvæða).  
  • Auðlindagjald af áformaðri nýtingu verði ákveðið og útfært áður en ákvörðun er tekin um nýtingu. Leitað verði leiða til að auðlindarenta verði eftir heima í héruðum, m.a. með hagsmuni sjávarbænda og nærliggjandi sveitarfélaga í huga. 

Það skal tekið fram að þetta er ekki ritað með þá afstöðu fyrirfram gefna að stórþaravinnsla við Norðurlandsstrendur muni hafa óviðunandi áhrif á umhverfi og/eða samfélög. Hreint ekki. Vel getur verið að í ljós muni koma að starfsemi af þessu tagi sé viðunandi á allan máta og úr geti orðið farsæl og fýsileg atvinnusköpun öllum til góða. Vandinn er að þetta veit bara enginn, enda hefur ekki verið lagt á þetta mat, og lykilaðilum hefur ekki verið tryggður réttur til að hafa um mál þessi að segja. 

Þessi framangreindu atriði þarf að klára áður en vaðið er af stað. Með því verður þá hægt að halda áfram af fullum krafti ef vel ígrunduð umræða og mat leiðir það í ljós að verkefnið sé hið fýsilegasta. Nú, að öðrum kosti, ef svo ólíklega vill til að þetta reynist óásættanlegt, kemur þá upp mikilvægt tækifæri til að falla frá þessu í tíma áður en frekari kostnaði er sökkt í málið. 

Óli Halldórsson

Umhverfisfræðingur og íbúi í Norðurþingi

Nokkrar vefslóðir með umfjöllun/heimildum um stórþaranýtingu:

https://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S0006320710002363

https://www.bbc.com/news/uk-scotland-scotland-politics-46289449

https://www.lab-worldwide.com/researchers-see-huge-potential-for-kelp-farming-in-norway-a-820559/

https://sp-bpr-en-prod-cdnep.azureedge.net/published/2018/11/12/Kelp-harvesting/SB%2018-75.pdf

https://www.althingi.is/lagas/nuna/2000106.html