Að standa utan gátta

Að standa utan gátta

Flakkað milli flokka
Það hefur löngum tíðkast að stöku þingmenn kjósi að yfirgefa flokka sína en sitja áfram á þingi. Þetta er gjarnan kallað flokkaflakk. Á líðandi kjörtímabili Alþingis hefur þetta sannarlega gerst eins og svo oft áður. Ekki bara með nýlegri útgöngu eins af mínum flokksfélögum úr Vinstri grænum til „óháðrar“ áframhaldandi þingsetu, heldur með enn meira afgerandi hætti þegar þingmannakvartett Flokks fólksins helmingaðist skyndilega í kjölfar vinafundarins eftirminnilega á Klausturbar. Um leið óx Miðflokknum, sem tók við liðhlaupunum, fiskur um hrygg nokkuð umfram það sem kjósendur ákváðu með atkvæðum sínum. Oftast verður rót af þessu tagi þegar nokkuð er liðið á kjörtímabil og í öllum tilvikum eftir ágreining af einhverju tagi. Ekki hyggst ég rekja hér sögu flokkaflakks frekar, en víst er að dæmin eru allmörg og ná til flestra flokka og margra kjörtímabila. Prýðilegar samantektir eru til um slíkt (sjá t.d nýlega ágæta yfirferð hér:  https://romur.is/ohadir-thingmenn/ ). Ólíkt fólk, ólíkir flokkar og ólík tilefni, en sama framvindan.

Trúnaður við sannfæringu
Flokkaflakkið útskýrist jafnan með því að fólki beri að halda trúnað við eigin sannfæringu og gjarnan vísað í þeim efnum alla leið aftur í stjórnarskrá, sem sannarlega kveður á um skyldur þingmanna til að fylgja sannfæringu við störf sín (48. gr. 33/1944). Þessi sannfæring þingsmanns sem segir skilið við flokk sinn gengur þá væntanlega það mikið gegn megináherslum viðkomandi flokks að ekki verði annar kostur talinn fær en að láta leiðir skiljast.  Þó ágreiningi samflokksfólks sé öllu jöfnu hægt að finna farveg innan þingflokka verður að gera ráð fyrir því að þessi staða hljóti alltaf að geta komið upp af og til, rétt eins og í öllum öðrum félagsskap eða á vinnumarkaði, og átt sér sínar eðlilegu skýringar. En það er mikilvægt að hafa hugfast að þó þingmaður fylgi sannfæringu sinni réttilega og sjái sig knúinn til að segja sig úr stjórnmálaflokki útheimtir það alls ekki að hann sé knúinn til að sitja áfram á þingi og beita þessari sannfæringu sinni þar áfram. Stjórnarskráin knýr engan til þess að sitja á þingi eða sinna starfi. Hún hefur hins vegar sitthvað að segja um það hvernig það skuli gert. Kerfið sem við búum við byggir þvert á móti allt á því kjósendur úthluti þingsætum til framboða með atkvæðum sínum, en ekki til einstaklinga.  Gangi einn kjörinn fulltrúi úr skaftinu af einhverjum ástæðum, til dæmis af þeirri ástæðu að sannfæring knýi hann til að segja skilið við flokk sinn, getur næsti fulltrúi á listanum tekið sjálfkrafa við þegar í stað. Og þar næsti, allt þar til framboðslisti er tæmdur ef því er að skipta. Þetta er raunar eitt af undirstöðuatriðum flokkakerfis hinnar íslensku kosningastjórnsýslu.

Trúnaður við kjósendur
Lögmæti flokkaflakksins verður í sjálfu sér hér ekki dregið í efa en lögfróðir geta rakið það frekar. Eitt er alla vega ljóst, að flokkaflakkið hefur tíðkast og verið látið óátalið. Þetta breytir því ekki að siðferðileg staða þeirra sem flakka milli flokka er ekki hafin yfir gagnrýni. Það er nefnilega full ástæða til að rýna þessa stöðu út frá sjónarhóli kjósenda og umboði þessara kjörnu fulltrúa. Hinn kjörni fulltrúi óskar eftir að fá að sitja á framboðslista flokks, oft í mikilli samkeppni við fjölmarga aðra félaga sína. Þingsætið fær hann svo að láni (ekki til eignar) á grunni þessarar niðurstöðu og hlutfallslegs útreiknings á fylgi viðkomandi framboðs. Kjörinn fulltrúi situr því alltaf og óhjákvæmilega í umboði kjósenda tiltekins framboðs. Kjósendurnir stýra því ekki hvernig þingmaðurinn situr í sínum stól, en stóllinn er samt kjósendanna, þeir stýra því hvort hann situr þarna yfir höfuð. Í þessu umboði – þessum stólum – njóta Alþingismenn þeirra forréttinda að þjóna samfélaginu og þiggja fyrir völd sín, áhrif, ágæt kjör og virðingarstöðu. Þessu lykilatriði um umboðið til að sinna starfinu yfir höfuð ætti ekki að rugla saman við ákvæði stjórnarskrár um skyldur þingmanna til að fylgja sannfæringu sinni þegar þeir sinna sínum störfum.

Hvað skal gera?
Kjósendur hafa fulla ástæðu til að gera ríkulegar kröfur til sinna kjörnu fulltrúa um bæði löghlýðni og siðferðilega framgöngu. Þetta fer oftast saman auðvitað en ekki alltaf þó. Þingmaður sem þegið hefur sæti út frá kjörfylgi tiltekins framboðs og segir sig svo frá því þarf að hafa siðferðisþrek til að fylgja sannfæringu sinni til enda. Standast þá freistingu að sitja áfram og hagnýta sér til áhrifa umboð kjósenda sem hann tengist ekki lengur. Hann þarf að hætta. Þannig að kjósendur geti kallað inn sinn næsta fulltrúa á lista, sem sannarlega hefur þá réttmætt umboð til sinna starfa, byggt á kjörfylgi framboðsins og (býsna flóknum) útreikningi þingsætafjölda þess. Annars gerist það að umboðskeðjan rofnar. Einn angi í vegferðinni til að auka traust almennings á Alþingi er að stoppa í svona kerfislæg göt sem gefa kjósendum langt nef þegar að er gáð. Enginn kjósandi fær að eiga aðkomu að þeim fléttum sem verða við flokkaflakk, sem þegar upp er staðið færa til raunniðurstöður lýðræðislegra kosninga. Einstökum Alþingismönnum ætti ekki að vera í sjálfsvald sett að geta gert slíkar breytingar eftirá. Og þó löggjöfin kunni að gera þeim það mögulegt að sitja sem fastast á þingi eftir flokkaflakkið ættu þeir einfaldlega að sjá sóma sinn í að gera það ekki. Kjörinn fulltrúi án kjörs er bara fulltrúi. Ekki fulltrúi kjósenda. Og hlýtur alltaf að standa utan gátta.