Illugi í villum

Illugi í villum

[Greinin birtist einnig á Kjarnanum 16. okt. 2020 sem aðsent efni]

Ráðherra höfuðsettur

Illugi Jökulsson skrifaði nýverið pistil til höfuðs forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, með titlinum „Hvað hefur lukkast hjá Katrínu?“ [https://stundin.is/grein/12009/hvad-hefur-lukkast-hja-katrinu/]. Katrín er nú á fjórða vetri kjörtímabils og því þótti Illuga ekki úr vegi að hugleiða stöðu hennar. Hann hefur reyndar skrifað viðlíka greinar á fyrri vetrum kjörtímabilsins. Sjálfur er Illugi líklega á sínum fjórða áratug sem blaðamaður og sögurýnir á Íslandi og því er kannski ekki úr vegi að hugleiða stöðu hans svolítið. Illugi er fyrir löngu orðinn ein af röddum þjóðarinnar og hefur afkastað miklu á starfsævinni, mörgu ákaflega gagnlegu. Hann hefur líka gagnrýnt stjórnvöld oft þegar þörf hefur verið á. Að Illugi skrifi þjóðfélagsrýni er því síður en svo athugavert og hreint ekki fréttnæmt.  Að hann skrifi pistil af þessu tagi til höfuðs Katrínu er raunar heldur ekki fréttnæmt, enda verður hann seint talinn í aðdáendahópi hennar. En Illuga er svolítið farið að fatast flugið. Í stað þess að gagnrýna af myndugleik málefni og gjörðir forsætisráðherrans og ríkisstjórnar er þessi pistill hans lítið annað en innihaldslausar fyrirsagnir og útúrsnúningar.

Ekki-lygin

Ein undirfyrirsögnin í þessum nýjasta Katrínarpistli Illuga er þessi: „Vísvitandi með rangt mál?.“  Skilaboðin til lesanda eru öllum ljós; að forsætisráðherra þjóðarinnar segi ósatt og það vísvitandi. Þetta eru stór orð úr munni þekkts og reynds blaðamanns um forsætisráðherra og ljóslega ætlað að grípa skjótfengna athygli. Vandinn með svona stór orð er sá að þau útheimta ófrávíkjanlega mjög haldgóðan rökstuðning. Hann er ekki er að finna í pistli Illuga. Í kjölfar fyrirsagnarinnar stóru þynnist skúbbið Illuga heldur. Meintar lygar Katrínar reynast ekki aðrar en þær að í nokkurra mánaða gömlu blaðaviðtali, við annan blaðamann, á öðrum miðli, í öðru samhengi hafi hún sagst telja „verulegt ákall almennings eftir stöðugleika í stjórnarfari“. Þetta staðhæfir Illugi að sé „himinhrópandi rangt“ og sakar Katrínu um að vera „glámskyggnari en leyfilegt ætti að vera“ sjái hún ekki sannleikann um þjóðarviljann sem Illugi telur sig greinilega þekkja betur. Þetta er eiginlega frekar ómerkilegt.

Þæga, hlýðna konan

Illuga tekst, nokkuð óvænt, í pistli sínum að blanda sér með þróttmiklum söng í hinn fjölradda karlakór sem fer með möntruna um þægu og hlýðnu konuna, sem brosir í einhverju skrauthlutverki húsmóður á stjórnarheimili karlanna. Með orðum Illuga: Katrín Jakobsdóttir kæmi sér brosmild fyrir á teppinu með kústinn, kastaði mæðinni alls hugar fegin og segði: „Nú er allt í lagi.“

Ég ætla að leiða hér hjá mér kvenfyrirlitninguna (sæta Katrín með kústinn) enda hefur þvælu af því tagi frá öðrum körlum verið ágætlega mætt með föstum rökum undanfarið. En svona lagað er í besta falli ósanngjörn og fullkomlega órökstudd ásökun um algeran undirlægjuhátt eins af skarpari og sterkari forsætisráðherrum síðustu áratuga. Illugi rökstyður ekkert í pistlinum sínum. Ekki neitt. Upptalning góðra verka forsætisráðherrans og hennar fólks, til að hreyfa andmælum við ásökun Illuga, er óþörf hér. En verkin eru nú til samt. Sjá t.d. samantekt hér: http://gerumbetur.vg.is

Vonda mannvalið

Með fáeinum heiðarlegum undantekningum er þar [meðal ráðherra ríkisstjórnar] satt að segja ekki um stórfenglegt mannval að ræða“. 

Þetta skrifar Illugi orðrétt í pistli sínum og setur meira að segja í fyrirsögn líka, aftur ljóslega til að grípa athygli lesenda með einföldum hætti. Hvað skyldi „ekki stórfenglegt mannval“ merkja í huga Illuga? Hvaða einstaklinga við ráðherraborðið á hann við? Sennilega forsætisráðherrann alla vega ef skilja má anda pistilsins. Og hverjar eru svo „heiðarlegu undantekningarnar“? Það er vondur siður blaðamanna að stilla sér upp í hásæti til að dæma rakalaust með einföldum frösum um vont eða gott „mannval“ hópa. Er vont mannval í huga dómarans hér illa innrætt fólk, eða kannski treggáfað, eða siðblint eða framtakslaust? Eða bara hið ágætasta fólk sem vill til að er ósammála blaðamanninum um einhverjar pólitískar áherslur? Kannski á Illugi við eitthvað allt annað þegar hann dæmir mannval í hópum. Hver veit. En allur ráðherrahópurinn sem um er rætt situr undir órökstuddum sleggjudómi. Þetta er ekki boðlegt.

Fyrirsagnablaðamennska

Pistlar eins og þessi eru bitlaus, popúlísk fyrirsagnablaðamennska. Ef rökstuðningur og almenn virðing fyrir fólki, hverfa alveg úr textum samfélagsrýna okkar þá situr lítið eftir nema þurrelduð biturð.  Hún er frekar vont veganesti.

Óli Halldórsson

Félagi í VG í Norðausturkjördæmi og Norðurþingi.

[Greinin birtist einnig á Kjarnanum 16. okt. 2020 sem aðsent efni]